„Ótrúlega ánægður og hamingjusamur fyrir hönd Selfoss“

Alfreð Elías fær mjólkurbað frá markaskoraranum Hólmfríði Magnúsdóttur eftir leik. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það var frábær stemmning og mikið mannhaf við brúarsporðinn á Selfossi þegar kvennalið Selfoss kom með Mjólkurbikarinn yfir brúna á ellefta tímanum í kvöld.

Blys, lögreglufylgd, flugeldasýning og almenn gleði sem lauk með því að bæjarstjórn Árborgar afhenti liðinu tveggja milljón króna verðlaunafé – milljón á mark – eins og bæjarráð samþykkti í vikunni.

Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, var í skýjunum með daginn og mótttökurnar en Selfoss vann KR 2-1 í framlengdum leik.

„Þetta er alveg geggjað, ég er ótrúlega ánægður og hamingjusamur fyrir hönd Selfoss. Þetta var eitt af markmiðum sumarsins, að verða bikarmeistari, ég sagði þér það í vor. Þegar ég var ráðinn til Selfoss fyrir tveimur og hálfu ári þá ætluðum við að taka titil, og nú erum við að haka við það,“ sagði Alfreð í samtali við sunnlenska.is í kvöld. Hann viðurkenndi að leikurinn hafi ekki verið sá besti.

„Leikurinn var ekki sá besti. Það var stress í okkur og fyrsti hálftíminn var mjög lélegur. Við áttum erfitt með að spila okkar leik, en aftur á móti, eins og ég hef oft sagt; við höfum svo mikla trú á því sem við erum að gera að við þurfum ekki að spila okkar besta leik til þess að vinna hvaða lið sem er. Formið á liðinu er enn og aftur að skila sér,“ sagði Alfreð ennfremur.

„Þetta er búinn að vera frábær dagur, en það sem stendur uppúr er samheldni bæjarfélagsins og liðsins. Móttökurnar hér á Selfossi voru algjörlega geggjaðar – þetta er eitthvað sem stelpurnar eiga að muna eftir og langa til að upplifa aftur,“ sagði Alfreð sem þarf að ná liðinu aftur niður á jörðina fyrir deildarleik gegn toppliði Vals á heimavelli á miðvikudagskvöld.

„Já, það er stutt í næsta leik. Við munum fagna vel í kvöld og svo er æfing klukkan fimm á morgun. Beint niður á jörðina aftur,“ sagði Alfreð brosandi að lokum.

Fyrri greinSelfyssingar bikarmeistarar í fyrsta sinn
Næsta grein„Sá þetta fyrir mér á koddanum í gærkvöldi“