Ótrúleg úrslit að Hlíðarenda

Nýliðar Selfoss unnu stórsigur þegar þeir mættu Val á útivelli í 2. umferð Olís-deildar karla í handbolta á Hlíðarenda í kvöld. Þrettán mörk skildu liðin að í lokin, 23-36.

Jafnt var á öllum tölum fram í miðjan fyrri hálfleikinn en þá skellti Grét­ar Ari Guðjóns­son í lás í marki Sel­foss og liðið fékk góðar sóknir í kjölfarið. Staðan var 11-16 í hálfleik.

Selfyssingar létu kné fylgja kviði í síðari hálfleik þar sem sóknarleikur liðsins var mjög góður með þá Einar Sverrisson og Elvar Örn Jónsson fremsta í flokki.

Einar skoraði 8 mörk í leiknum og Elvar Örn 7/2. Hergeir Grímsson, Guðni Ingvarsson og Alexander Egan skoruðu allir 4 mörk, Teitur Örn Einarsson og Andri Már Sveinsson 2 og þeir Guðjón Ágústsson, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Haukur Þrastarson skoruðu allir 1 mark. Grétar Ari varði 12 skot og Helgi Hlynsson 6/1.

Selfoss vann Aftureldingu óvænt og örugglega í fyrstu umferð en úrslitin í kvöld voru jafnvel ennþá óvæntari. Selfyssingar eru með fullt hús í deildinni og mæta næst Haukum á heimavelli á mánudagskvöld.

Fyrri greinSelfoss semur við níu unga leikmenn
Næsta grein„Þrennan kemur einn daginn“