Ótrúleg byrjun á Íslandsmótinu

Gonzalo Zamorano skoraði sigurmark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann magnaðan sigur á HK á útivelli þegar keppni hófst í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld. Liðin mættust inni í Kórnum og Selfoss sigraði 2-3.

Það er ekki hægt að segja að byrjunin á Íslandsmótinu hafi verið róleg því eftir tólf mínútna leik var staðan orðin 2-2. Gary Martin kom Selfyssingum yfir á 5. mínútu með mögnuðu marki þar sem hann smellti boltanum upp í samskeytin og þremur mínútum síðar kom hann Selfyssingum í 0-2 eftir góðan undirbúning frá Gonzalo Zamorano. Þá vöknuðu HK-ingar, þeir minnkuðu muninn strax í næstu sókn og á 12. mínútu jöfnuðu þeir 2-2 eftir að Selfyssingar sváfu á verðinum eitt augnablik.

Selfyssingar létu þetta ekki slá sig út af laginu og þeir voru líklegri til þess að bæta við mörkum í fyrri hálfleik en allt kom fyrir ekki og staðan var 2-2 í leikhléi. Það var hart barist í seinni hálfleik en Selfyssingar voru sterkari og skoruðu verðskuldað sigurmark á 70. mínútu. Gonzalo kórónaði þar góðan leik sinn með glæsilegu marki og Selfoss fagnaði 2-3 sigri.

Fyrsti heimaleikur Selfyssinga verður föstudaginn 13. maí en þá kemur Grótta í heimsókn á Jáverk-völlinn.

Fyrri greinSelfoss með bakið upp við vegg
Næsta greinHveragerði margbreytileikans