Óskar og Katrín hætt eftir 21 árs stjórnarsetu

Ný stjórn GHR. Á myndina vantar Guðrúnu gjaldkera og Guðlaug úr varastjórn.

Aðalfundur Golfklúbbs Hellu var haldinn í síðustu viku og mættu rúmlega 30 manns á fundinn. Þar bar helst til tíðinda að hjónin Óskar Pálsson og Katrín Björg Aðalbjörnsdóttir gáfu ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn, en Óskar hefur verið formaður félagsins í 21 ár og Katrín Björg hefur gengt gjaldkerastöðunni jafn lengi.

Guðmundur Ágúst Ingvarsson var kosinn nýr formaður, en hann hefur verið búsettur í Holtunum undanfarin ár. Hann hefur langa reynslu af stjórnunarstörfum í íþróttahreyfingunni, er nýkjörinn heiðursfélagi ÍSÍ og hefur lengi gengt trúnaðarstöðum innan hreyfingarinnar, er til að mynda fyrrverandi formaður HSÍ og átti um tíma sæti í stjórn ÍSÍ.

Guðrún Arnbjörg Óttarsdóttir var kosin gjaldkeri, en aðrir stjórnarmenn gáfu kost á sér áfram. Einar Long var endurkjörinn varaformaður, Bjarni Jóhannsson ritari og Guðný Rósa Tómasdóttir meðstjórnandi. Varastjórn skipa þeir Guðlaugur Karl Skúlason og Friðrik Sölvi Þórarinsson.

Fráfarandi stjórn með Óskar og Katrínu í fremstu röð.
Fyrri greinVildi ekki verða hluti af þriggja kynslóða harmsögu
Næsta greinElfar Guðni sýnir í Listagjánni