Óskar með tvö í fyrsta leik

Ægismenn unnu mikilvægan skyldusigur á KH í B-riðli 3. deildar karla í knattspyrnu í kvöld, 1-5 á útivelli.

Ægismenn voru sterkari í leiknum en tókst ekki að koma boltanum nema einu sinni í mark KH í fyrri hálfleik og þar var að verki Luc Mahop. Heimamenn jöfnuðu strax í kjölfarið og staðan var 1-1 í hálfleik.

Eyþór Guðnason kom Ægi í 1-2 strax í upphafi síðari hálfleiks og á 65. mínútu skoraði Óskar Snær Vignisson sitt fyrsta mark fyrir félagið í sínum fyrsta leik.

Aco Pandurevic kom Ægi í 1-4 tíu mínútum síðar og Óskar var ekki hættur því hann bætti öðru marki við á lokakaflanum og tryggði Ægi 1-5 sigur, sem hefði reyndar getað verið stærri.

Heimamenn luku leik manni færri því að á 80. mínútu var einum leikmanni þeirra vísað af velli þegar hann fékk sitt annað gula spjald.

B-riðillinn er búinn að vera í hnút í allt sumar og sá hnútur er ekki að leysast. Þegar þrjár umferðir eru eftir er Ægir í 4. sæti með 19 stig og sex lið eiga enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina.

STAÐAN Í B-RIÐLI
22 stig – KV, +6 mörk
20 stig – Léttir, +15 mörk
20 stig – Ýmir, +15 mörk
19 stig – Ægir, +10 mörk
19 stig – KFR, +8 mörk
17 stig – KFS, +7 mörk