Ósigur í Árbænum

Dagný Brynjarsdóttir með boltann í leiknum í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss hóf leik í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu í dag á tapi gegn Fylki á útivelli.

Selfoss byrjaði leikinn af miklum krafti en tókst ekki að koma knettinum í netið þrátt fyrir nokkrar ágætar sóknir. Færin voru ekki mörg en baráttan mikil og Selfoss hafði yfirhöndina í fyrri hálfleik sem var markalaus.

Fylkiskonur komust 1-0 yfir snemma í síðari hálfleik eftir skyndisókn, sinni fyrstu almennilegu sókn í leiknum, en Selfyssingar vörðust klaufalega.

Í kjölfarið hélt Selfoss áfram að reyna að sækja en vantaði eitthvað bit í sóknarleikinn. Það var þó mikil dramatík í lokin þegar Selfoss fékk vítaspyrnu á 88. mínútu. Brotið var á Dagnýju Brynjarsdóttur og Fylkiskonur voru mjög ósáttar við dóminn. Magdalena Reimus fór á vítapunktinn en spyrnti framhjá.

Fleiri urðu færin ekki og lokatölur urðu 1-0. 

Fyrri greinÁrborg vann aftur í vítakeppni – Stokkseyri úr leik
Næsta greinBikarvörnin byrjar í Garðabæ – Selfoss og Árborg fengu útileiki