Örvar leikmaður ársins

Lokahóf meistaraflokks Stokkseyrar í knattspyrnu var haldið fyrir skömmu. Örvar Hugason var valinn leikmaður ársins, bæði af stjórn og leikmönnum.

Leikmenn og stjórn héldu lokahóf þar sem farið var í óvissuferð sem gerði daginn ógleymanlegan og en deginum lauk með með verðlaunafhendingu og humarsúpu um kvöldið.

Stjórn Stokkseyrar valdi Örvar Hugason leikmann ársins en hann var auk þess markakóngur liðsins. Eyþór Gunnarsson var valinn efnilegasti leikmaðurinn og Arnar Þór Ingólfsson fékk Mattabikarinn. Leikmenn kusu einnig og þar var Örvar kosinn leikmaður ársins og miðjumaður ársins, Eyþór Gunnarsson markvörður varnarmaður ársins og Þórhallur Aron Másson framherji ársins.

Stokkseyri leikur í 4. deildinni og var að ljúka sínu öðru keppnistímabili eftir margra ára hlé. Árangurinn var mun betri í ár en í fyrra en liðið varð í 6. sæti B-riðils.

Það er mikill hugur í leikmönnum og aðstandendum klúbbsins og tilhlökkunin fyrir næsta tímabil er mikil. Þessi sami hópur þakkar styrktaraðilum og aðdáendum fyrir stuðninginn á þessu ári og hlakkar um leið til samstarfs næsta árs.

Fyrri greinMengunarmælum fjölgað á Suðurlandi
Næsta greinStyttist í útboðið á hreinsistöðinni