Öruggur sigur tryggði Pepsideildarsæti

Karlalið Selfoss vann öruggan sigur á ÍR, 1-3, á ÍR-vellinum í Breiðholti í dag. Viðar Örn Kjartansson skoraði öll mörk Selfoss.

Leikurinn var jafn framan af en ÍR átti ágætt færi strax á 2. mínútu. Ekki dró þó almennilega til tíðinda fyrr en á 20. mínútu að Einar Ottó Antonsson fiskaði vítaspyrnu eftir að hafa geyst inn í teig ÍR-inga þar sem brotið var á honum.

Viðar Örn Kjartansson fór á vítapunktinn og skoraði örugglega. Eftir markið voru Selfyssingar líklegri en færin voru fá. Peter Klancar átti ágætt skot yfir markið á 30. mínútu en fimm mínútum síðar kom annað mark Selfoss.

Jón Daði Böðvarsson átti þá misheppnað skot en boltinn fór beint á Viðar Örn sem skoraði af öryggi. 0-2 forysta Selfoss lifði þó skammt því tveimur mínútum síðar minnkuðu ÍR-ingar muninn eftir barning í vítateig Selfoss.

Fjörið var þó ekki búið í fyrri hálfleik því að á 45. mínútu fengu Selfyssingar aðra vítaspyrnu þegar brotið var á Jóni Daða. Viðar fór aftur á punktinn og skoraði í sama horn.

Seinni hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri. ÍR-ingar fengu ágætt færi á 58. mínútu en Jóhann Ólafur Sigurðsson varði gott skot úr aukaspyrnu í horn. Á 71. mínútu fékk Viðar svo tvö dauðafæri í sömu sókinni. Viðar fékk sendingu frá Sævari Gíslasyni, einn á móti markverði en lét verja frá sér í horn. Uppúr hornspyrnunni fékk Viðar frábært færi við vítapunktinn en skot hans fór í innkast.

Á 77. mínútu gerði Viðar sig aftur líklegan í tvígang en ÍR-ingar björguðu í bæði skiptin. Á 85. mínútu átti síðan varamaðurinn Ingi Rafn Ingibergsson bylmingsskot yfir af löngu færi en markvörður ÍR varði í horn. Þetta var síðasta færi leiksins og Selfyssingar sigldu öruggum sigri nokkuð auðveldlega í höfn.