Öruggur sigur þegar upp var staðið

Auður Helga Halldórsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar gerðu góða ferð austur á Vopnafjörð í dag þar sem þær heimsóttu Einherja í 2. deild kvenna í knattspyrnu.

Það blés hressilega á vellinum og það tók leikmenn nokkra stund að ná tökum á aðstæðunum. Selfyssingar voru sterkari og Guðmunda Brynja Óladóttir kom þeim yfir á 25. mínútu. Það var eina markið í fyrri hálfleiknum.

Selfoss hafði áfram góð tök á leiknum í seinni hálfleiknum en mörkin létu standa á sér þangað til á lokakaflanum. Á 67. mínútu skoraði Sara Rún Auðunsdóttir og á eftir fylgdu mörk frá Auði Helgu Halldórsdóttur og Ásdísi Emblu Ásgeirsdóttur. Öruggur sigur þegar upp var staðið, 0-4.

Eftir fimm umferðir eru Selfyssingar með fullt hús stiga, 15 stig í toppsæti deildarinnar.

Fyrri greinSnarpar vindhviður undir Ingólfsfjalli
Næsta greinÁrborg missteig sig heima