Öruggur sigur Selfyssinga

Selfoss vann öruggan sigur á KA/Þór í Olísdeild kvenna í handbolta á Selfossi í dag, 29-19.

Leikurinn var jafn í upphafi en eftir tíu mínútur var staðan 4-3. Þá tóku Selfyssingar við sér og náðu góðri forystu sem hélst til leiksloka. Staðan var 16-9 í hálfleik.

Adina Ghidoarca og Carmen Palamariu voru markahæstar hjá Selfyssingum, báðar með 7 mörk, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir skoraði 5/2, Perla Ruth Albertsdóttir 4 og þær Kara Rún Árnadóttir og Sigrún Arna Brynjarsdóttir voru báðar með 3 mörk.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 10 skot og var með 50% markvörslu og Áslaug Ýr Bragadóttir varði 6 skot og var með 40% markvörslu.

Selfyssingar hafa unnið báða leiki sína í deildinni og eru með fjögur stig eins og Valur, ÍBV og Grótta.

Fyrri greinÓlafur bauð lægst í hitaveituna
Næsta greinÆgir bjargaði sér í lokaumferðinni