Öruggur sigur Selfoss á heimavelli

Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss vann góðan sigur á Fylki í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu í dag. Lokatölur á JÁVERK-vellinum urðu 1-0.

„Þetta var fínt í fyrri hálfleik en við vorum kannski að gera hlutina aðeins of flókna fyrir okkur. Við fórum yfir það í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var samt aðeins erfiðari fyrir okkur. Fylkisliðið var ekki að skapa neitt, við vorum bara þéttar fyrir og gerðum bara það sem við þurftum að gera. Varnarleikurinn var frábær í dag en við hefðum getað gert betur í mörgum sóknum þar sem við fengum hálffæri en höfðum kannski aðra, betri möguleika,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir leik.

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði eina mark leiksins strax á 3. mínútu þegar hún fékk frábæra sendingu innfyrir Fylkisvörnina frá Barbáru Sól Gísladóttur. Hólmfríður setti markmann Fylkis úr jafnvægi og skoraði auðveldlega í tómt markið.

Færin urðu ekki mikið fleiri, Hólmfríður fékk besta færið á 24. mínútu en skot hennar var varið. Annars var vinnslan í Selfossliðinu mikil og góð og óhætt að segja að um sannkallaðan liðssigur hafi verið að ræða.

Staða liðanna í deild­inni er óbreytt. Sel­foss hef­ur 28 stig í 3. sæti deild­ar­inn­ar en Fylk­ir er í 5. sæti með 22 stig.

Fyrri greinTokic með þrennu í seinni hálfleik
Næsta greinÞyrla sótti slasaðan göngumann við Gígjökul