Öruggur sigur í lokaumferðinni

Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss sigraði KR örugglega í lokaumferð A-deildar Lengjubikars kvenna í knattspyrnu á gervigrasinu á Selfossi í kvöld.

Upphafsmínúturnar voru fjörugar og staðan var 1-1 eftir tæplega fimm mínútna leik. KR komst yfir á þriðju mínútu en tæpum tveimur mínútum síðar þrumaði Katrín Ágústsdóttir boltanum í netið hinu megin á vellinum og jafnaði fyrir Selfoss.

Selfyssingar voru sterkari aðilinn það sem eftir lifði leiks. Barbára Sól Gísladóttir skoraði gott skallamark á 13. mínútu og á 21. mínútu setti Eva Lind Elíasdóttir boltann í netið með góðu skoti úr teignum.

Staðan var 3-1 í hálfleik en seinni hálfleikurinn var mun rólegri og markalaus allt fram undir lokin. Auður Helga Halldórsdóttir kom inná sem varamaður á 82. mínútu og skömmu síðar skoraði hún af stuttu færi eftir að hafa hirt frákast í teignum.

Selfoss lauk keppni í 4. sæti A-deildarinnar með 6 stig en KR-ingar eru stigalausir á botninum.

Fyrri greinTitill og HSK met á Bikarkeppni FRÍ
Næsta greinSöfnun til stuðnings fjölskyldu Guðjóns