Öruggur sigur í lokaumferðinni

Kvennalið Selfoss vann öruggan sigur á botnliði Fylkis þegar liðin mættust í lokaumferð Olís-deildar kvenna í handbolta á Selfossi í dag.

Selfoss hafði undirtökin í fyrri hálfleik, sem þó var nokkuð kaflaskiptur. Staðan var 12-11 í hálfleik. Í seinni hálfleiknum spýttu heimakonur í lófana og innbyrtu öruggan sex marka sigur, 29-23.

Dijana Radojevic var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir og Adina Ghidoarca skoruðu báðar 5, Kristrún Steinþórsdóttir 4 og þær Ída Bjarklind Magnúsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu báðar 3 mörk.

Selfoss varð í 7. sæti deildarinnar með 12 stig og mætir HK í undanúrslitum umspils um sæti í Olís-deildinni á næstu leiktíð. Í hinni viðureigninni mætast KA/Þór og FH. Fyrstu leikir umspilsins fara fram 19. og 20. apríl og þarf að vinna tvo leiki til þess að komast í úrslit.

UPPFÆRT 09/04 KL. 10:36

Fyrri greinSunnlenska.is sjö ára í dag
Næsta greinÆgir lék Reynismenn grátt