Öruggur sigur í lokaumferðinni

Selfyssingar luku keppni í Lengjubikar karla í knattspyrnu í dag með 4-0 sigri á Fjarðabyggð á JÁVERK-vellinum á Selfossi.

Selfossliðið lék manni fleiri megnið af leiknum en á 19. mínútu fékk leikmaður Fjarðarbyggðar beint rautt spjald fyrir brot og Selfyssingar fengu aukaspyrnu. Arnór Gauti Ragnarsson skoraði glæsilegt mark úr aukaspyrnunni.

Staðan var 1-0 í hálfleik en á fyrstu fimmtán mínútum síðari hálfleiks bættu Selfyssingar við tveimur mörkum með skömmu millibili, fyrst Haukur Ingi Gunnarsson og svo Ragnar Þór Gunnarsson. Arnór Ingi Gíslason innsiglaði svo 4-0 sigur Selfoss með marki á 75. mínútu.

Þetta voru einu stig Selfyssinga í mótinu en Selfoss lauk keppni í Lengjubikarnum í 5. sæti riðils-2 í A-deildinni, með þrjú stig.

Fyrri grein„Talsverð þreyta komin í mannskapinn“
Næsta greinBíða svara ráðherra