Öruggur sigur í kaflaskiptum leik

Selfyssingar unnu öruggan sigur á Hömrunum á heimavelli þegar keppni hófst í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 29-20.

Gestirnir skoruðu fyrsta mark leiksins og leiddu 1-2 áður en Selfyssingar sneru leiknum sér í vil. Selfoss breytti stöðunni í 7-3 og síðari hluta fyrri hálfleiks léku Selfyssingar vel í vörn og sókn og fóru með sjö marka forskot inn í leikhléið, 16-9.

Í upphafi síðari hálfleik voru Selfyssingar í hægagangi og gestirnir nýttu sér það. Hamrarnir náðu að minnka muninn úr 17-9 í 22-19 á fyrstu tuttugu mínútum síðari hálfleiks. Þá girtu Selfyssingar sig aftur í brók og kláruðu leikinn með 7-1 áhlaupi þannig að lokatölur urðu 29-20.

Sverrir Pálsson skoraði 8/3 mörk fyrir Selfyssinga og var einnig sterkur í vörninni. Egidijus Mikalonis skoraði 7 mörk, Jóhann Erlingsson 5, Daníel Róbertsson og Andri Már Sveinsson 2 og þeir Sævar Ingi Eiðsson, Ómar Helgason, Árni Geir Hilmarsson, Elvar Örn Jónsson og Guðjón Ágústsson skoruðu allir 1 mark.

Sebastian Alexandersson átti fínan leik í marki Selfoss, varði 16 skot og var með 44,4% markvörslu.

Fyrri greinStyttist í útboðið á hreinsistöðinni
Næsta greinNeyðarbúnaður fluttur að Búrfelli og Sultartanga