Öruggur sigur í fyrsta umspilsleiknum

Arna Kristín Einarsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann öruggan sigur á FH í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum umspils um sæti í Olísdeild kvenna í handbolta á næsta tímabili.

Selfoss byrjaði betur og komst í 6-2 en gekk erfiðlega að hrista FH-inga af sér eftir það. FH jafnaði 8-8 og leikurinn var í járnum allt þar til á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiks þegar Selfoss skoraði fjögur mörk í röð og staðan var 17-13 í hálfleik.

Heimakonur höfðu örugga forystu allan seinni hálfleikinn og juku hana í níu mörk á lokakaflanum en lokatölur urðu 34-25.

Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9/3 mörk og var frábær bæði í vörn og sókn, Arna Kristín Einarsdóttir og Tinna Sigurrós Traustadóttir skoruðu 5 mörk, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir, Roberta Stropé, Hulda Hrönn Bragadóttir og Rakel Guðjónsdóttir 3, Tinna Soffía Traustadóttir 2 og Karen Helga Díönudóttir 1.

Cornelia Hermansson varði 12 skot í marki Selfoss og var með 34% markvörslu og Áslaug Ýr Bragadóttir varði 2 skot og var með 50% markvörslu.

Liðin mætast næst á miðvikudaginn í Kaplakrika en það lið sem vinnur tvo leiki kemst í úrslitaviðureignina og mætir þar ÍR eða Gróttu.

Fyrri greinBjörn Jóel mætti firnasterkum Brassa
Næsta greinSkallagrímur jafnaði