Öruggur sigur í fyrsta heimaleiknum

Perla Ruth Albertsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss vann öruggan sigur á Fram-U í Grill-66 deildinni í handbolta í Set höllinni á Selfossi í kvöld.

Selfoss skoraði tvö fyrstu mörkin en Fram jafnaði 3-3. Eftir það stigu Selfyssingar á bensíngjöfina og héldu forskotinu allan fyrri hálfleikinn. Staðan var 20-17 í hálfleik.

Heimakonur náðu fimm marka forskoti snemma í seinni hálfleik og juku svo forystuna jafnt og þétt upp í ellefu mörk, 36-25. Heldur dró saman með liðunum á lokakaflanum en sigur Selfyssinga var þó öruggur, lokatölur 36-31.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk og Tinna Sigurrós Traustadóttir og Katla María Magnúsdóttir skoruðu báðar 7 mörk. Í dag var tilkynnt um að þær þrjár eru í 35 manna úrtaki landsliðskvenna fyrir Heimsmeistaramótið í handbolta í desember næstkomandi.

Aðrir markaskorarar Selfoss voru Dagný Huld Birgisdóttir, Katla Björg Ómarsdóttir, Adela Jóhannsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir, allar með 3 mörk og Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 2.

Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 12 skot í marki Selfoss og var með 44% markvörslu og Cornelia Hermansson varði 6/1 skot og var með 27% markvörslu.

Þetta var annar leikur Selfyssinga í deildinni og sitja þær með fullt hús stiga í toppsætinu.

Fyrri greinBesta lyktin af sjóðandi heitu kappaksturdekki
Næsta greinLágmarksverð mjólkur hækkar