Öruggur sigur Hamarsmanna

Magnús Ingi Einarsson skoraði mark Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann öruggan sigur á Berserkjum í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu á Grýluvelli í kvöld. Hvergerðingar sitja þægilega í toppsæti riðilsins.

Berserkir voru fyrri til að skora í kvöld en þeir komust yfir á 19. mínútu með marki upp úr hornspyrnu. Magnús Ingi Einarsson jafnaði metin tíu mínútum síðar með góðu skallamarki og hann var síðan arkitektinn að öðru marki Hamars sem Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði á 35. mínútu. Bjarki Rúnar bætti svo við marki úr vítaspyrnu á 44. mínútu og staðan var 3-1 í hálfleik.

Hvergerðingar gáfu ekkert eftir í seinni hálfleik og Matthías Ásgeir Rocha bætti glæsilegu marki við á 57. mínútu eftir hornspyrnu frá Magnúsi Inga. Magnús skoraði svo sitt annað mark og kórónaði góðan leik á 67. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf frá Loga Geir Þorlákssyni í netið. 

Fleiri urðu mörkin ekki á lokakaflanum og Hvergerðingar lönduðu 5-1 sigri á öruggan hátt.

Hamar er í efsta sæti C-riðils með 24 stig en Berserkir eru í 6. sætinu með 7 stig.