Öruggur sigur Hamars – Árborg og Stokkseyri fengu stig

Hamar vann öruggan sigur á Kríu í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Árborg og Stokkseyri gerðu jafntefli í sínum leikjum.

Hamar sótti Kríu heim á Seltjarnarnes og komust yfir á 14. mínútu með marki frá Sigmari Baldurssyni og Tómas Hassing gerði út um leikinn á 38. mínútu. Fleiri urðu mörkin ekki og Hamar lyfti sér upp í 2. sætið í D-riðlinum, nú með 17 stig.

Árborg tók á móti Berserkjum í toppslag A-riðilsins og þar var heldur betur líf og fjör. Tómas Kjartansson skaut í stöngina úr vítaspyrnu á 18. mínútu en Magnús Helgi Sigurðsson kom Árborg yfir með glæsilegu marki á 23. mínútu. Berserkir jöfnuðu leikinn strax í næstu sókn og staðan var 1-1 í hálfleik.

Árborgarar höfðu yfirhöndina framan af síðari hálfleik og Hartmann Antonsson kom þeim yfir með skoti af stuttu færi eftir hornspyrnu á 55. mínútu. Á 71. mínútu misstu Berserkir mann af velli og í kjölfarið fengu Árborgarar nokkur tækifæri til þess að bæta við þriðja markinu. Það kom ekki og á lokamínútunum féll Árborgarliðið mjög djúpt á völlinn til að verjast. Gestirnir gengu á lagið og jöfnuðu á þriðju mínútu uppbótartíma. Lokatölur 2-2.

Stokkseyringar gerðu vel að ná í stig gegn Mídasi á útivelli þar sem Mídasarmenn voru komnir í 2-0 eftir 48 mínútna leik. Eyþór Gunnarsson minnkaði muninn á 60. mínútu og bætti svo við öðru marki á 86. mínútu, til þess að tryggja Stokkseyringum stigið. Lokatölur einnig 2-2 í þessum leik.

Árborgarar eru enn ósigraðir á toppi A-riðilsins með 19 stig en Stokkseyri er með 8 stig í 4. sæti.