Öruggur sigur gegn botnliðinu

Jóhanna Ágústsdóttir skoraði 18 stig í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór vann öruggan sigur gegn botnliði ÍR í 1. deild kvenna í körfubolta í Hveragerði í dag. Lokatölur urðu 113-76.

Sóknarleikur Hamars/Þórs gekk vel í dag og liðið var komið með gott forskot í hálfleik, 64-30. Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta en aðeins dró saman með liðunum á lokasprettinum en sigur Hamars/Þórs var aldrei í hættu.

Allir leikmenn Hamars/Þórs komust á blað í dag. Tijana Raca var stigahæst með 35 stig, Jóhanna Ágústsdóttir skoraði 18, Aniya Thomas skoraði 14 stig, tók 10 fráköst og sendi 6 stoðsendingar, Hildur Gunnsteinsdóttir skoraði 12 stig, Gígja Rut Gautadóttir og Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 7 og Kristrún tók 17 fráköst að auki, Emma Hrönn Hákonardóttir og Anna Katrín Víðisdóttir skoruðu 6 stig, Diljá Salka Ólafsdóttir 3, Elín Þórdís Pálsdóttir og Helga María Janusdóttir 2 og Þóra Auðunsdóttir 1.

Toppbaráttan í 1. deildinni er hörð. Aþena er á toppnum með 24 stig, Hamar/Þór og Ármann hafa 22 stig og KR og Tindastóll 20 en tvö síðastnefndu liðin mætast innbyrðis í kvöld.

Fyrri greinSigur hjá Ægi – Selfoss sótti jafntefli
Næsta greinJafntefli í Suðurlandsslagnum