Selfoss tók á móti ÍBV í úrvalsdeild kvenna í handbolta í Set-höllinni Iðu á Selfossi í dag. ÍBV vann öruggan sigur, 29-40.
ÍBV byrjaði frábærlega í leiknum og eftir rúmar tíu mínútur voru þær komnar með fimm marka forskot, 5-10. Selfoss náði að minnka muninn í tvö mörk en þá tóku gestirnir aftur við sér og náðu mest átta marka forskoti. Staðan í hálfleik var 13-20. Selfoss átti engin svör í seinni hálfleik og ÍBV náði mest 11 marka forskoti áður en yfir lauk.
Hulda Dís Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 7/3 mörk, Adela Eyrún Jóhannsdóttir og Mia Kristin Syverud skoruðu 5, Victoria McDonald og Hulda Hrönn Bragadóttir 3, Inga Sól Björnsdóttir og Eva Lind Tyrfingsdóttir 2 og þær Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir og Arna Kristín Einarsdóttir skoruðu 1 mark hvor.
Ágúst Tanja Jóhannsdóttir varði 10 skot í marki Selfoss og var með 23% markvörslu og Sara Xiao Reykdal varði 1 skot og var með 14% markvörslu.
Selfoss er í 7. sæti deildarinnar með 4 stig en ÍBV er í 2. sæti með 16 stig, jafnmörg stig og topplið Vals.
