Öruggur sigur Árborgar

Magnús Helgi Sigurðsson skoraði fyrir Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg vann öruggan sigur á Álafossi í lokaumferð C-deildar Lengjubikars karla í knattspyrnu í Mosfellsbæ í dag.

Lokatölur urðu 1-5 en sigurinn dugði Árborg ekki til þess að komast í toppsætið, þar sem Hvíti riddarinn hafði þegar tryggt sér það með fullt hús stiga.

Aron Freyr Margeirsson, Kristinn Sölvi Sigurgeirsson og Guðmundur Aðalsteinn Sveinsson skoruðu allir fyrir Árborg í fyrri hálfleik auk þess sem Álafossmenn skoruðu eitt sjálfsmark.

Staðan var 0-4 í leikhléi en Magnús Helgi Sigurðsson bætti fimmta markinu við um miðjan seinni hálfleikinn, áður en Álafoss skoraði sárabótarmark í lokin.

Árborg varð í 2. sæti í riðli-4 með 9 stig, þremur stigum á eftir toppliðinu.

Fyrri greinSelfoss framkallaði Stjörnuhrap – Mæta ÍR í úrslitakeppninni
Næsta greinEldur í rusli við Sunnulækjarskóla