Öruggur sigur á heimavelli

Arnar Logi Sveinsson skoraði þriðja mark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann áttunda sigurinn í röð í 2. deild karla í knattspyrnu í dag þegar ÍR kom í heimsókn á Selfossvöll. Lokatölur urðu 3-1.

Selfyssingar voru sprækir í upphafi leiks og Valdimar Jóhannsson kom þeim yfir á 14. mínútu eftir frábæran samleik við Hrvoje Tokic. Þeir tóku þá létt þríhyrningaspil fyrir utan vítateig ÍR og Valdimar kláraði færið afskaplega vel.

Selfoss var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og þeir tvöfölduðu forskotið á 42. mínútu þegar Tokic gerði vel og skallaði fyrirgöf Þorsteins Daníels Þorsteinssonar í netið.

Staðan var 2-0 í hálfleik en ÍR-ingar mættu nokkuð sprækir í seinni hálfleikinn, enda þurftu þeir að færa sig framar á völlinn. Þeir áttu ágætar sóknir en Selfyssingar refsuðu þeim grimmilega á 63. mínútu. Tokic lagði þá boltann fyrir Arnar Loga Sveinsson sem átti hörkuskot í varnarmann en frákastið datt aftur á Arnar Loga sem lagði knöttinn af öryggi í netið.

Selfyssingar misstu aðeins tökin á leiknum á lokakaflanum. ÍR-ingar náðu að minnka muninn í 3-1 með skallamarki eftir aukaspyrnu á 75. mínútu og gestirnir voru í kjölfarið ákafir í að bæta við marki. Þeir fengu þó engin teljandi færi en hinu megin á vellinum var Kenan Turudija nálægt því að bæta við fjórða marki Selfoss á 81. mínútu en Brynjar Sigurðsson, markvörður ÍR, varði meistaralega frá Turudija sem var í dauðafæri í teignum.

Þetta var áttundi sigur Selfyssinga í röð og hafa þeir nú 37 stig í toppsætinu, en Kórdrengir sem eru í 2. sæti með leik til góða geta endurheimt toppsætið ef þeir ná að leggja Fjarðabyggð að velli síðdegis í dag.

Fyrri greinLeituðu manns í Þjórsárdal í nótt
Næsta greinHamar kláraði riðilinn með sigri