Öruggur sigur á Gróttu

Selfyssingar unnu 4-1 sigur á 1. deildarliði Gróttu í síðasta æfingaleik sínum fyrir átökin í Pepsi-deildinni.

Liðin mættust í suddanum á Selfossvelli í kvöld og heimamenn voru töluvert sprækari. Davíð Birgisson kom Selfoss í 1-0 á 17. mínútu en lítið var um færi framan af leik. Dan Howell jafnaði fyrir Gróttu á 35. mínútu en tveimur mínútum síðar kom Sævar Þór Gíslason Selfyssingum yfir aftur og staðan var því 2-1 í hálfleik.

Selfyssingar réðu lögum og lofum í síðari hálfleik. Henning Jónasson skoraði þriðja markið úr vítaspyrnu og Jón Daði Böðvarsson lagði fjórða markið laglega upp fyrir Inga Rafn Ingibergsson. Lítið reyndi á Denis Cardaklija sem lék í marki Selfyssinga í síðari hálfleik en hann er til reynslu hjá liðinu.