Selfoss vann góðan sigur á Víkingi í gærkvöldi í 1. deild kvenna í handbolta. Eftir jafnar upphafsmínútur í Set-höllinni keyrði Selfoss upp hraðann og vann öruggan sigur.
Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en þá gerði Selfoss átta marka áhlaup og breytti stöðunni úr 5-5 í 13-5. Staðan var 17-11 í hálfleik.
Selfoss leit ekki til baka eftir þetta heldur bætti í forskotið og um miðjan seinni hálfleikinn var munurinn orðinn tólf mörk, 26-14. Þegar flautað var til leiksloka skildu tíu mörk liðin að, 31-21.
Tinna Sigurrós Traustadóttir, Katla María Magnúsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir voru markahæstar Selfyssinga með 6 mörk, Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 4, Hulda Dís Þrastardóttir 3, Harpa Valey Gylfadóttir 2 og þær Adela Jóhannsdóttir, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir, Katla Björg Ómarsdóttir og markvörðurinn Cornelia Hermansson skoruðu allar 1 mark en Cornelia varði 16 skot að auki í marki Selfoss.
Selfoss er á toppi deildarinnar með 28 stig og ekkert annað en sigur í deildinni blasir við þeim. Víkingur er í 3. sæti með 19 stig.