Öruggur heimasigur í Hveragerði

Úr leiknum í kvöld. Ljósmynd/Hamar

Fyrirfram var búist við hörkuspennandi leik í Hveragerði þegar Þróttarar heimsóttu heimamenn í Hamri í úrvalsdeild karla í blaki í kvöld.

Heimamenn virtust þó mæta betur undirbúnir til leiks og unnu fyrstu tvær hrinurnar nokkuð þægilega, 25-18 og 25-20.
Þegar kom að þriðju hrinu virtust Þróttarar þó ætla að stríða Hamarsmönnum. Þeir voru með forystu framan af, en eftir að heimamenn jöfnuðu, 7-7 sáu Þróttarar ekki til sólar og Hamarsmenn unnu hrinuna örugglega, 25-17, og leikinn þar með 3-0.

Með sigrinum styrktu Hamarsmenn stöðu sína á toppi deildarinnar. Þeir hafa nú sex stiga forystu á KA, sem hefur spilað einum leik færri.

Stigahæstur í liði Hamars var Denis Pavlovs með 20 stig, en stigahæstur í liði Þróttar var Kacper Kendra með 13 stig.

Fyrri greinFramtíð sveitarfélaganna í Árnessýslu rædd
Næsta greinAldan hlaut Íslensku hljóðvistarverðlaunin