Öruggt hjá Þór gegn botnliðinu

Tómas Valur Þrastarson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann öruggan sigur á botnliði Breiðabliks í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld en liðin mættust í Þorlákshöfn.

Það var mikið skorað í fyrri hálfleiknum en Þórsarar höfðu undirtökin og leiddu 61-50 í hálfleik.

Heimamenn gerðu endanlega út um leikinn í 3. leikhluta þar sem þeir fóru á kostum bæði í vörn og sókn. Staðan var orðin 93-67 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Þar náðu Blikar að saxa aðeins á forskotið en sigur Þórsara var ekki í neinni hættu, lokatölur 120-104.

Nigel Pruitt var stigahæstur Þórsara með 34 stig, Tómas Valur Þrastarson skoraði 27 stig, tók 6 fráköst og sendi 7 stoðsendingar, Jordan Semple var hársbreidd frá þrefaldri tvennu með 24 stig, 13 fráköst og 9 stoðsendingar, Darwin Davis skoraði 13 stig og sendi 10 stoðsendingar og Fotios Lampropoulos skoraði 11 stig og tók 7 fráköst.

Þórsarar eru með 10 stig á toppnum eins og Valur og Njarðvík en Blikar eru áfram stigalausir á botninum.

Fyrri greinSelfoss og Hrunamenn töpuðu heima
Næsta greinMyndbrot Elfars Guðna í Listagjánni