Öruggt hjá Selfyssingum – Mílan tapaði

Það var boðið upp á handboltaveislu í Vallaskóla á Selfossi í kvöld þar sem tveir leikir fóru fram í 1. deild karla.

Selfoss fékk KR í heimsókn og átti ekki í neinum vandræðum með að landa sigri. Staðan var 21-10 í hálfleik og heimamenn nánast búnir að gera út um leikinn. KR-ingar voru þó með lífsmarki í upphafi seinni hálfleiks og náðu að minnka muninn en Selfyssingar tóku þá aftur á sprett og lönduðu öruggum sigri, 31-24.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Egidijus Mikalonis skoraði 4, Rúnar Hjálmarsson 3, Árni Geir Hilmarsson og Teitur Örn Einarsson 2 og þeir Magnús Öder Einarsson, Guðjón Ágústsson, Árni Guðmundsson, Örn Þrastarson, Eyvindur Hrannar Gunnarsson og Alexander Már Egan skoruðu allir 1 mark.

Í seinni leik kvöldsins mættust Mílan og HK en Mílan vann síðustu viðureign liðanna eftirminnilega. HK ingar virtust ákveðnir í því að hefna fyrir tapið en náðu þó ekki að hrista Mílumenn af sér fyrr en á lokakaflanum. Eftir fjörugan fyrri hálfleik var staðan 12-12 í leikhléi en þegar leið á seinni hálfleikinn jókst forskot HK jafnt og þétt. Staðan var 18-26 þegar rúmar tíu mínútur voru eftir en þá tók Mílan kipp og minnkaði muninn í 24-27. HK hélt heimamönnum hins vegar í skefjum undir lokin og sigraði 25-29.

Sævar Ingi Eiðsson var markahæstur hjá Mílunni með 10 mörk, Sigurður Már Guðmundsson skoraði 5, Gunnar Páll Júlíusson, Magnús Már Magnússon, Guðbjörn Tryggvason og Bjarki Már Magnússon skoruðu allir 2 mörk og þeir Gunnar Ingi Jónsson og Viðar Ingólfsson skoruðu 1 mark hvor.

Selfoss er í 3. sæti deildarinnar með 14 stig eins og Fjölnir, sem er í 2. sæti, en Mílan er í 5. sæti með 6 stig, jafnmörg og HK sem er í 6. sætinu.

Fyrri greinÖruggt hjá Hamri gegn botnliðinu
Næsta greinIllskiljanlegt að þeir tekjuhæstu fái mest í sinn hlut