Öruggt hjá Selfyssingum – KFR úr leik

Selfyssingar verða í hattinum þegar dregið verður í 32-liða úrslit Borgunarbikars karla í knattspyrnu eftir 2-5 sigur á ÍR í kvöld. KFR er úr leik.

Þegar 27 mínútur voru liðnar af leik ÍR og Selfoss höfðu Ingi Rafn Ingibergsson og Joseph Yoffe skorað sitt markið hvor fyrir Selfoss og staðan var 0-2 í hálfleik.

Bernard Brons bætti þriðja marki Selfoss við þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik og Yoffe kom Selfoss í 0-4 á 79. mínútu.

Lokamínúturnar voru fjörugar en ÍR minnkaði muninn í 2-4 á tveggja mínútna kafla en Yoffe gerði út um vonir þeirra með því að kóróna þrennuna og tryggja Selfoss 2-5 sigur á 87. mínútu.

KFR mætti Ými í Kópavoginum og þar var leikurinn nánast búinn eftir tuttugu mínútna leik þegar heimamenn voru komnir í 3-0. Hjörvar Sigurðsson minnkaði muninn í 3-1 með marki úr vítaspyrnu á 32. mínútu og fleiri urðu mörkin ekki.

2. umferð bikarkeppninnar lýkur annað kvöld og dregið verður í 32-liða úrslitin á miðvikudag.

Fyrri greinStórri kerru stolið á Selfossi
Næsta greinÍvar missti af sigrinum í lokin