Öruggt hjá Selfyssingum í lokaumferðinni

Selma Friðriksdóttir skoraði sitt fyrsta meistaraflokksmark. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss lagði ÍBV örugglega í lokaumferð Pepsi Max deildar kvenna í knattspyrnu á Selfossvelli í dag, 2-0.

Fyrsta mark leiksins kom strax á 3. mínútu en það skoraði Selma Friðriksdóttir með skoti af stuttu færi eftir undirbúning Hólmfríðar Magnúsdóttur. Þetta var dagurinn hennar Hólmfríðar því hún var að spila sinn 300. deildarleik frá upphafi og kórónaði góðan leik sinn með skallamarki eftir hornspyrnu Önnu Maríu Friðgeirsdóttur á 33. mínútu.

Selfossliðið var miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en tókst ekki að bæta við mörkum og staðan var 2-0 í hálfleik.

Í seinni hálfleik jafnaðist leikurinn og bæði lið fengu ágæt færi. Alli Murphy fékk dauðafæri fyrir Selfoss í upphafi seinni hálfleiks og um hann miðjan átti Barbára Sól Gísladóttir skalla í þverslána. ÍBV átti líka sín færi en heilt yfir var Selfossvörnin nokkuð örugg og Kelsey Wys með allt á hreinu í markinu.

Selfoss varð í 3. sæti Pepsi Max deildarinnar í sumar sem er jöfnun á besta árangri félagsins. Liðið vann síðustu fjóra leikina í deildinni og lauk keppni með 34 stig og bikarmeistaratitilinn í vasanum.

Fyrri greinSelfoss sat eftir þrátt fyrir sigur
Næsta greinSelfoss vann upp sex marka forskot Vals