Öruggt hjá Selfyssingum í Breiðholtinu

Selfoss vann mjög öflugan útisigur á Leikni R í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur í Breiðholtinu urðu 0-3.

Selfyssingar mættu mun ákveðnari til leiks og komust yfir strax á 5. mínútu. Arnór Gauti Ragnarsson tók þá innkast sem Andy Pew fleytti yfir á fjærstöng. Þar var JC Mack á auðum sjó og skoraði af öryggi.

Selfossliðið varðist vel í leiknum og gaf engin færi á sér, um leið og baneitraðar skyndisóknir liðsins sköpuðu mikinn usla. Upp úr einni slíkri skoraði Pachu mark númer tvö á 38. mínútu. Hratt upphlaup upp vinstri kantinn og Giordano Pantano sendi góðan bolta inn í teig sem Pachu afgreiddi í netið.

Staðan var 0-2 í hálfleik en tveimur mínútum fyrir leikhlé var Halldóri Halldórssyni, fyrirliða Leiknis, vísað af velli fyrir að gefa Arnari Loga Sveinssyni meint olnbogaskot.

Leiknismenn voru því manni færri allan seinni hálfleikinn, sem var í öruggum höndum Selfyssinga. Ingi Rafn Ingibergsson bætti þriðja marki Selfoss við á 67. mínútu eftir „sendingu“ frá Þorsteini Daníel Þorsteinssyni.

Selfyssingar voru nær því að bæta við mörkum í lokin en tókst það þó ekki.

Selfoss hefur ekki tapað leik í síðustu sex umferðum og eru komnir á eftir hluta stigatöflunnar, í 5. sæti með 20 stig en Leiknir er í 3. sæti með 23 stig.