Öruggt hjá Selfyssingum á Nesinu

Selfoss vann öruggan sigur á botnliði Gróttu þegar liðin mættust á Seltjarnarnesi í Olís-deild kvenna í handbolta í gær.

Jafnt var á öllum tölum upp í 4-4 fyrstu fimmtán mínútur leiksins en þá skoruðu Selfyssingar þrjú mörk í röð. Grótta svaraði með næstu þremur mörkum og jafnaði 7-7 en Selfoss leiddi svo 8-9 í leikhléi.

Selfyssingar skoruðu fyrstu tvö mörkin í síðari hálfleik og náðu í kjölfarið að vera skrefinu á undan allan seinni hálfleikinn. Munurinn varð mestur fjögur mörk, 14-17, og Selfoss lokaði leiknum af öryggi með þriggja marka sigri, 18-21.

Perla Ruth Albertsdóttir var frábær í vörn og sókn í gær, skoraði 7 mörk og var markahæst. Kristrún Steinþórsdóttir skoraði 5 mörk, Hulda Dís Þrastardóttir, Arna Kristín Einarsdóttir og Sigríður Lilja Sigurðardóttir 2, Elvar Rún Óskarsdóttir og Ída Bjarklind skoruðu eitt mark hvor og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir skoraði 1/1 mark og var mjög sterk í vörninni.

Þórdís Erla Gunnarsdóttir varði 4 skot í marki Selfoss og Viviann Petersen 1.

Selfoss hefur nú 5 stig í 6. sæti deildarinnar.

Fyrri greinÞór tapaði í Keflavík
Næsta greinHellisheiði lokað frá kl. 15:00