Öruggt hjá Selfossi gegn ÍR

Selfoss gerði sér lítið fyrir og vann öruggan sigur á toppliði 1. deildar karla í handknattleik, ÍR þegar liðin áttust við í gærkvöldi. Lokatölur voru 31-25.

Staðan í hálfleik var 13-12 Selfossi í vil en í þeim síðari juku heimamenn muninn og höfðu að lokum sex marka sigur.

Atli Kristinsson fór á kostum í liði Selfoss og skoraði um þriðjung markanna eða 11 en Guðni Ingvarsson kom næstur með átta. Sigurður Már Guðmundsson skoraði sex mörk, Matthías Halldórsson þrjú, Gunnar Ingi Jónsson tvö og Ómar Helgason eitt.

Helgi Hlynsson varði 20 skot.

Selfoss er eftir leikinn með átján stig í fjórða sæti en ÍBV á leik til góða og getur jafnað Selfoss að stigum. ÍBV mætir Víkingi í dag.

Fyrri greinDrífa keypti Víkurprjón
Næsta greinHamar undir gegn ÍA