Öruggt hjá Selfossi gegn Þrótti

Selfoss vann öruggan 0-3 sigur á Þrótti í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld og lyfti sér þar með aftur upp í 4. sæti deildarinnar.

Selfyssingar voru sterkari í fyrri hálfleik, sem þó var markalaus lengst af. Dagný Brynjarsdóttir og Magdalena Reimus skoruðu sitthvort markið á síðustu fimm mínútum fyrri hálfleiks. Mark Magdalenu var sérstaklega glæsilegt, eftir góðan undirbúning Donna-Kay Henry lét Magdalena vaða af 25 metra færi upp í samskeytin.

Staðan var því 0-2 í hálfleik og það var svo fyrirliðinn Guðmunda B. Óladóttir sem bætti þriðja markinu við á 71. mínútu og gulltryggði sigur Selfoss.

Selfoss hefur nú 23 stig í 4. sæti deildarinnar, einu minna en Þór/KA í 3. sætinu og einu meira en ÍBV í 5. sætinu.

Næsti leikur liðsins er á heimavelli gegn Val, næstkomandi miðvikudag.

Fyrri greinKonditorimeistari til starfa
Næsta greinÍvar Greifi tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn