Knattspyrnufélag Rangæinga vann öruggan sigur á Afríku í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Uppsveitir töpuðu naumlega gegn KH.
KFR heimsótti Afríku út á Álftanes og þar kom Trausti Rafn Björnsson KFR yfir með tveimur mörkum með mínútu millibili um miðjan fyrri hálfleikinn. Heiðar Óli Guðmundsson bætti þriðja marki KFR við á 43. mínútu og staðan var 0-3 í hálfleik. Rangæingum tókst ekki að bæta við mörkum í seinni hálfleik en það kom ekki í veg fyrir öruggan sigur þeirra, lokatölur 0-3. KFR hefur nú 9 stig í 7. sæti A-riðilsins en Afríka er á botninum án stiga.
Á Flúðavelli fengu Uppsveitir fengu mark frá KH í andlitið strax á 6. mínútu en vörðust skipulega í kjölfarið og staðan var 0-1 í hálfleik. KH komst í 0-2 þegar korter var liðið af seinni hálfleik en Uppsveitamenn létu það ekki slá sig út af laginu og héldu sig við leikskipulagið. Það dró til tíðinda á 72. mínútu þegar Sigurður Donys Sigurðsson, þjálfari Uppsveita, skipti sér inná í fyrsta skipti í sumar. Þessi reynslumikli leikmaður var fljótur að láta að sér kveða en hann fiskaði vítaspyrnu tíu mínútum síðar og úr henni minnkaði Carlos Castellano muninn. Lokatölur leiksins urðu 1-2 og geta Uppsveitamenn unað sáttir við þau úrslit gegn einu sterkasta liði deildarinnar. Uppsveitir eru í 7. sæti B-riðils með 6 stig en KH er á toppnum með 25 stig.