Öruggt hjá KFR í Lengjunni

Guðmundur Gunnar Guðmundsson skoraði fjögur mörk og er markahæstur Rangæinga í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Rangæingar voru í stuði í dag þegar KFR mætti Stál-úlfi í C-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í Fagralundi í Kópavogi.

Guðmundur Gunnar Guðmundsson kom KFR yfir á fyrstu mínútu leiksins og Reynir Óskarsson bætti við öðru marki á 18. mínútu. Staðan var 0-2 í hálfleik en Magnús Hilmar Viktorsson og Guðmundur Gunnar komu KFR í 0-4 með mörkum með stuttu millibili í seinni hálfleiknum.

Stál-úlfarnir höfðu þó ekki sagt sitt síðasta í leiknum því þeir skoruðu tvisvar á síðustu tíu mínútum leiksins og lokatölur urðu 2-4.

Þetta var fyrsti leikur KFR í riðlinum og eru Rangæingar með 3 stig í 2. sæti.

Fyrri greinSamkeppni um kórlag
Næsta greinFrábær sigur Selfyssinga