Öruggt hjá KFR

Knattspyrnufélag Rangæinga vann öruggan 1-4 sigur á Knattspyrnufélagi Hlíðarenda í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Rangæingar voru sterkari í fyrri hálfleik og komust yfir þegar varamaðurinn Þórhallur Lárusson skoraði fyrsta mark leiksins. Þórhallur var þá nýkominn inná fyrir Reyni Björgvinsson sem fór meiddur af velli.

Staðan var 0-1 í hálfleik en Rangæingar bættu við þremur mörkum í seinni hálfleik. Þórhallur bætti við einu og þeir Helgi Ármannsson og Andrezej Jakimczvk skoruðu sitt markið hvor. KH náði að minnka muninn í 1-3 en sigur Rangæinga var aldrei í hættu og sigldu þeir leiknum örugglega í höfn.

KFR hefur nú 19 stig í 2. sæti riðilsins. Rangæingar hafa leikið tíu leiki en Ægir og KV eru í 3. og 4. sæti með 16 stig og eiga leik til góða.

Fyrri greinRíkisstjórnin sendir þakkir
Næsta grein„Vantar kjark til að taka ákvörðun“