Öruggt hjá Íslandsmeisturunum

Magnús Öder Einarsson var öflugur í kvöld og skoraði 7 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Selfoss unnu öruggan sigur á Stjörnunni í 19. umferð úrvalsdeildar karla í handbolta í kvöld, 29-32, á útivelli í Garðabænum.

Sigur Selfoss var aldrei í hættu, meistararnir leiddu allan tímann og náðu mest fimm marka forskoti undir lok fyrri hálfleiks. Staðan í leikhléi var 11-15.

Stjarnan náði að minnka muninn í upphafi seinni hálfleiks en Selfyssingar bættu þá í og náðu mest sjö marka forskoti þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum.

Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 8/4 mörk, Magnús Öder Einarsson skoraði 7, Atli Ævar Ingólfsson 6, Einar Sverrisson 5, Ísak Gústafsson, Daníel Karl Gunnarsson og Tryggvi Þórisson 2 og Guðni Ingvarsson 1.

Alexander Hrafnkelsson varði 8 skot í marki Selfoss og var með 33% markvörslu og Einar Baldvin Baldvinsson varði 5 skot og var með 27% markvörslu.

Selfoss hefur 25 stig í 4. sæti deildarinnar, jafnmörg stig og Haukar sem eru í 3. sæti og Afturelding sem er í 5. sæti.

Fyrri greinSelfyssingar sterkir í lokin
Næsta greinEva María Íslandsmeistari í hástökki