Öruggt hjá Hamri

Hamar vann öruggan sigur á ÍA í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi, 87-78.

Gestirnir byrjuðu betur og komust í 2-7 en þá vöknuðu Hvergerðingar, jöfnuðu 7-7 og tóku svo forystuna, 22-18 að loknum 1. leikhluta. Heimamenn voru sterkari í 2. leikhluta og gestirnir réðu ekkert við Louie Kirkman sem skoraði 16 stig í leikhlutanum, þar af 8 á vítalínunni. Hamar leiddi 48-35 í hálfleik.

Munurinn jókst enn frekar í 3. leikhluta en að honum loknum var staðan 71-54 og allt stefndi í stórsigur Hamars. Skagamenn voru þó ekki sammála því og sýndu mótspyrnu í upphafi síðasta fjórðungsins. Munurinn varð þó aldrei minni en átta stig og Hamar landaði öruggum sigri að lokum.

Louie Kirkman var bestur í liði Hamars, skoraði 24 stig. Gamli maðurinn, Svavar Páll Pálsson, átti líka fínan leik, skoraði 19 stig og tók 10 fráköst. Þá var Ragnar Nathanaelsson öflugur undir körfunni, skoraði 11 stig og tók 12 fráköst.

Hamar er nú í 3. sæti með 18 stig þegar fjórar umferðir eru eftir af deildinni.