Öruggt hjá Hamri þrátt fyrir fyrstu taphrinuna

Maður leiksins var Jakub Madeij, kantsmassari Hamars. Ljósmynd: Guðmundur Erlingsson.

Hamarsmenn tóku í dag á móti Aftureldingu í 4. leik liðsins í Mizunodeild karla í blaki.

Fyrir leikinn hafði Hamar unnið alla þrjá leiki sína 3-0 og voru á toppi deildarinnar ásamt HK með fullt hús stiga og enga tapaða hrinu. Afturelding hafði leikið tvo leiki og unnið annan og tapað hinum 3-0.

Hamarsmenn byrjuðu vel og leit út fyrir auðveldan 3-0 sigur í dag. Fyrsta hrinan vannst auðveldlega 25-13 og önnur hrinan 25-17.

Þá vaknaði lið Aftureldingar til lífsins og unnu þeir þriðju hrinu nokkuð örugglega 25-23. Þó litlu hafi munað á liðunum í lok hrinunnar þá var Afturelding með tök á henni allan tímann en Hamar klóraði í bakkann í lokin.

Fjórða og síðasta hrina var nokkuð jöfn þó heimamenn hefðu frumkvæðið allan tímann. Að lokum vann Hamar hrinuna 25-20 og þar með leikinn 3-1 og er enn með fullt hús stiga. HK situr þó eitt á toppnum með jafn mörg stig en betra hrinuhlutfall þar sem HK hefur unnið alla leiki sína 3-0.

Fyrri greinSkellur í Víkinni
Næsta greinViljayfirlýsing um framkvæmd 18 holu golfvallar við Selfoss