Öruggt hjá Hamri – KFR tapaði

Sam Malson skoraði fyrir Hamar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar vann öruggan sigur á Smára í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan KFR tapaði fyrir Kríu.

Hamar heimsótti Smára í Kópavoginn og lokatölur þar urðu 0-3. Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði eina mark fyrri hálfleiks en í síðari hálfleik bættu Sam Malson og Eysteinn Aron Bridde við mörkum fyrir Hamar. Hvergerðingar sitja nú í toppsæti B-riðilsins með 22 stig en KH sem er í 2. sæti á leik til góða á Hamar.

Á Hvolsvelli gerði Krían sig heimakomna. KFR reyndi að verjast henni eins og mögulegt var en gestirnir komust yfir á 20. mínútu. Undir lok fyrri hálfleiks fékk einn leikmanna Kríunnar rauða spjaldið en þrátt fyrir að vera manni fleiri allan seinni hálfleikinn tókst Rangæingum ekki að skora. Krían bætti hins vegar við marki í upphafi seinni hálfleiks og lokatölur urðu 0-2. KFR er í 8. sæti A-riðilsins en Kría er áfram á öruggu flugi í toppsætinu.

Fyrri greinHvorugt liðið sátt við eitt stig
Næsta greinSögulegur sigur HSK/Selfoss