Öruggt hjá Hamri í Keflavík

Hamar vann öruggan sigur á Keflavík í lokaumferð Iceland Express-deildar kvenna í kvöld, 72-91.

Hamar var sterkari í fyrri hálfleik og leiddi verðskuldað í leikhléinu, 29-48. Síðari hálfleikur var jafn og Keflvíkingum tókst ekki að minnka muninn.

Slavica Dimovska var stigahæst hjá Hamri með 21 stig, Kristrún Sigurjónsdóttir skoraði 19, Íris Ásgeirsdóttir 16, Fanney Lind Guðmundsdóttir 14, Jaleesa Butler 12 og tók 15 fráköst, Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði 7 stig og Adda María Óttarsdóttir 2.

Hamarskonur fóru því í gegnum deildarkeppnina með nítján sigra í tuttugu leikjum. Þær tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í síðustu umferð.

Úrslitakeppni Iceland Express-deildar kvenna hefst á laugardag en Hamar og Keflavík sitja hjá í 1. umferð. Í 1. umferð mætast KR og Snæfell annars vegar og Haukar og Njarðvík hins vegar. Í 2. umferð mætir Hamar annað hvort Haukum eða Njarðvík.