Öruggt hjá Hamri í fyrsta leik

Kvennalið Hamars vann öruggan sigur á 1. deildarliði Stjörnunnar í Lengjubikar kvenna í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 103-67.

Hamar var mun sterkari aðilinn allan leikinn en Hvergerðingar komust í 18-5 í upphafi leiks og staðan var 28-16 að loknum fyrsta leikhluta. Stjarnan minnkaði muninn í tíu stig, 33-23, áður en Hamar tók á rás undir forystu Hannah Tuomi og leiddi í hálfleik, 48-33, en Tuomi skoraði 16 stig í fyrri hálfleik.

Yfirburðir Hamars héldu áfram í seinni hálfleik. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 78-48 og lokatölur 103-67.

Hannah Tuomi var stigahæst hjá Hamri með 26 stig og 19 fráköst, Jaleesa Ross skoraði 11 stig og Álfhildur Þorsteinsdóttir skoraði 8 stig og tók 13 fráköst.

Keppnisfyrirkomulaginu á Lengjubikarnum hefur verið breytt frá fyrra ári. Í ár leika liðin í tveimur riðlum þar sem leikin er einföld umferð. Þau lið sem verða efst í sínum riðli að lokinni riðlakeppni leika til úrslita laugardaginn 1. október.

Fyrri greinReknir úr ML vegna fíkniefnaneyslu
Næsta greinBeroma opnar netverslun