Öruggt hjá FSu

FSu vann öruggan sigur á Laugdælum þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi, 104-88.

Aðeins var spilað upp á heiðurinn í þessum leik sem skipti ekki máli fyrir liðin uppá stöðuna á stigatöflunni að gera.

FSu tók forystuna strax í 1. leikhluta og hélt henni út leikinn þó að Laugdælir hafi fylgt í humátt á eftir þeim allan tímann. Staðan í hálfleik var 46-41 en FSu lagði grunninn að sigrinum með góðum kafla í 3. leikhluta.

Valur Orri Valsson átti stórleik fyrir FSu, skoraði 38 stig, tók 11 fráköst og sendi 7 stoðsendingar. Guðmundur Gunnarsson skoraði 24 stig og Sæmundur Valdimarsson 13.

Í liði Laugdæla skoraði Pétur Már Sigurðsson 23 stig, Bjarni Bjarnason 20, Sigurður Orri Hafþórsson 17 og Anton Kárason 14.

FSu lauk keppni í deildinni í 6. sæti með 10 sigra og átta töp. Laugdælir sitja í 8. sæti með 4 sigra í 18 leikjum, fyrir ofan Leikni og Ármann sem féllu.

Fyrri greinU2 messur í dag
Næsta greinSelfoss U lagði Víking