Öruggt hjá Árborg

Árborg er á toppi A-riðils 3. deildar karla í knattspyrnu eftir 4-0 sigur á Álftanesi á heimavelli í dag.

Gestirnir voru betri fyrsta korterið en þegar Guðmundur Ármann Böðvarsson kom Árborg yfir á 16. mínútu sljákkaði nokkuð í þeim. Árborg bætti svo við tveimur mörkum með þriggja mínútna millibili og gerðu endanlega út um leikinn. Þar voru á ferðinni Guðmundur Garðar Sigfússon og Guðmundur Eggertsson.

Árborg hafði góð tök á leiknum í síðari hálfleik og gestirnir ógnuðu lítið. Arnar Freyr Óskarsson kórónaði góðan leik sinn fyrir Árborg með fjórða marki liðsins á 75. mínútu og þar við sat.