Öruggt hjá Árborg – Hamar tapaði stigum

Árborg vann öruggan sigur á Álafossi í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Hamar gerði jafntefli við Björninn og KFR tapaði fyrir Stál-úlfi.

Árborg var mun sterkari aðilinn þegar Álafoss kom í heimsókn á Selfossvöll í C-riðlinum. Haukur Ingi Gunnarsson, Daníel Ingi Birgisson og Aron Freyr Margeirsson skoruðu í fyrri hálfleik og Halldór Rafn Halldórsson og Hartmann Antonsson bættu við mörkum í seinni hálfleiknum. Lokatölur urðu 5-0.

Hamar byrjaði vel gegn Birninum á Grýluvelli þar sem Atli Eðvaldssons stýrði Hvergerðingum í fyrsta skipti. Sam Malson og Ingþór Björgvinsson komu Hamri í 2-0 en Björninn náði að minnka muninn fyrir leikhlé. Í seinni hálfleik var hart barist en Björninn náði að jafna 2-2 í blálokin.

KFR átti ekki gott kvöld þegar liðið heimsótti Stál-úlf á gervigrasið við Kórinn í Kópavogi. Stál-úlfur komst í 1-0 á 16. mínútu og þannig stóðu leikar allt þar til á 83. mínútu að heimamenn bættu við öðru marki, lokatölur 2-0.

Árborg endurheimti toppsætið í A-riðlinum með sigrinum í kvöld og Hamar en enn í toppsæti A-riðils þrátt fyrir jafnteflið. Bæði lið geta þó farið niður í 2. sætið þar sem lið fyrir neðan eiga leik til góða. KFR er hins vegar áfram á botni A-riðils.

Fyrri greinFékk 230 þúsund króna sekt og sviptingu
Næsta greinGóðar aðstæður í Veiðivötnum