Öruggt hjá Árborg – Hamar kom til baka

Árborgarar fagna markaskoraranum Gesti Helga Snorrasyni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg vann öruggan sigur á Höfnum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á sama tíma og Hamar gerði jafntefli gegn Vængjum Júpíters.

Það tók Árborgara rúman hálftíma að brjóta ísinn gegn Höfnum en Kristinn Ásgeir Þorbergsson kom þeim yfir á 37. mínútu. Fimm mínútum síðar fékk leikmaður Hafna að líta rauða spjaldið og Árborgara því einum manni fleiri meira en hálfan leikinn.

Staðan var 1-0 í hálfleik og Árborgarar voru líklegri á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Gestur Helgi Snorrason tvöfaldaði forskot þeirra með góðu marki á 65. mínútu en í kjölfarið sóttu gestirnir í sig veðrið, án þess að ná að skora. Varamaðurinn Steinar Aron Magnússon innsiglaði svo 3-0 sigur Árborgar með glæsilegu skallamarki á 90. mínútu.

Rancez leiddi endurkomu Hamars
Hamar heimsótti Vængi Júpíters í Egilshöllina og sú heimsókn byrjaði ekki gæfulega, því Vængir voru komnir í 2-0 eftir rúmt korter. Staðan var 2-0 í hálfleik en Hvergerðingar mættu rjúkandi sprækir inn í seinni hálfleikinn. Guido Rancez skoraði af vítapunktinum á 48. mínútu og tveimur mínútum síðar var hann búinn að jafna leikinn, 2-2. Þrátt fyrir ágætar sóknir beggja liða urðu mörkin ekki fleiri og liðin skiptu með sér stigunum.

Árborg er áfram í 3. sæti deildarinnar, nú með 23 stig og hefur minnkað bilið í KH í 2. sætinu í 3 stig. Útlitið hjá Hamri er svart, þeir eru með 3 stig í botnsætinu og þurfa að vinna fjóra af síðustu fimm leikjum leikjum sínum til þess að bjarga sér frá falli.

Fyrri greinUm 80 keppendur frá HSK á leið á Unglingalandsmót
Næsta greinUppsveitir töpuðu í níu marka leik