Öruggt hjá Árborg – Fjögur rauð í Hveragerði

Árborg vann öruggan sigur á Vatnaliljunum í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á meðan Hamar gerði jafntefli við Víði í fjörugum leik í 3. deildinni.

Pálmi Þór Ásbergsson kom Árborg yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks og staðan var 0-1 í hálfleik. Páll Óli Ólason og Magnús Helgi Sigurðsson bættu svo við mörkum fyrir Árborg um miðjan síðari hálfleik og lokatölur urðu 0-3.

Árborg er í 6. sæti D-riðils með 13 stig þegar ein umferð er eftir.

Hamar og Víðir áttust við í hörkuleik á Grýluvelli. Tómas Hassing og Ingþór Björgvinsson komu Hamri í 2-0 á fyrstu tuttugu mínútum leiksins en Víðir skoraði tvö mörk á skömmum tíma undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 2-2 í hálfleik.

Á 57. mínútur fékk Ingþór að líta rauða spjaldið ásamt leikmanni Víðis eftir ryskingar þeirra í milli og rúmum fimm mínútum síðar fékk Gunnar Páll Pálsson beint rautt spjald og Hvergerðingar því orðnir níu gegn tíu. Gunnar braut af sér sem aftasti varnarmaður og Víðismenn fengu vítaspyrnu að auki.

Víðismenn skoruðu úr spyrnunni og leiddu þá 2-3 en manni færri náðu Hvergerðingar að jafna, þremur mínútum fyrir leikslok. Þar var á ferðinni Samúel Arnar Kjartansson og hann kórónaði svo þennan rauða síðari hálfleik með sínu seinna gula spjaldi og þar með brottvísun í uppbótartíma, þannig að Hamarsmenn luku leik með átta leikmenn inni á vellinum.

Lokatölur 3-3 og Hamarsmenn áfram í botnsæti deildarinnar.

Fyrri greinMikilvægur sigur í fallbaráttunni
Næsta greinSækir aftur um leyfi fyrir vindmyllum