Öruggt hjá Árborg en Stokkseyri fékk skell

Árborg lagði Afríku á útivelli en Stokkseyri fékk skell heima á móti Kóngunum í A-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Árborg heimsótti Afríku á Leiknisvöllinn í Breiðholti. Fyrri hálfleikur var markalaus en eftir rúmar fimmtán mínútur í síðari hálfleik braut Hartmann Antonsson ísinn fyrir Árborg. Skömmu síðar bætti Magnús Helgi Sigurðsson öðru marki við og Arnar Freyr Óskarsson kórónaði 0-3 sigur með marki af vítapunktinum á 80. mínútu.

Stokkseyringar fengu Kóngana í heimsókn og Björgvin Karl Guðmundsson kom heimamönnum yfir á 19. mínútu þegar hann fékk góða sendingu innfyrir og kláraði færið vel. Gestirnir jöfnuðu tæpum tíu mínútum síðar og staðan var 1-1 eftir frekar jafnan fyrri hálfleik.

Kóngarnir kláruðu síðan leikinn með því að skora þrjú mörk á fyrstu átta mínútum síðari hálfleiks. Staðan var skyndilega orðin 1-4 og Stokkseyringar áttu enga von eftir það. Staðan var orðin 1-5 á 63. mínútu og besta færi Stokkseyringa í síðari hálfleik kom strax á eftir þegar markvörður gestanna varði vel frá Barða Páli Böðvarssyni og í kjölfarið björguðu gestirnir á línu. Sjötta mark Kónganna leit dagsins ljós á 69. mínútu og þeir voru nær því að bæta við mörkum heldur en Stokkseyri að minnka muninn, áttu meðal annars stangarskot auk þess sem Jón Viðar Friðriksson, markvörður Stokkseyrar, varði aukaspyrnu frá Kóngunum í þverslána.

Árborg er í sjötta sæti riðilsins með 6 stig en Stokkseyri í 7. sætinu með 3 stig.

Fyrri greinHvolsvallarlöggan í háloftunum
Næsta greinAukið úrval og lengri opnunartími