Öruggt hjá Árborg en Hamar í basli

Kristinn Ásgeir Þorbergsson skoraði tvö mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Árborg sigraði Álftanes í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld á sama tíma og Hamar tapaði á heimavelli gegn KÁ.

Aron Freyr Margeirsson kom Árborg yfir á Álftanesinu, strax á 2. mínútu og Kristinn Ásgeir Þorbergsson tvöfaldaði forystuna á 38. mínútu. Árborg byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og Kristinn Sölvi Sigurgeirsson skoraði strax í upphafi. Kristinn Ásgeir skoraði svo sitt annað mark um miðjan seinni hálfleikinn en Álftanes náði inn sárabótarmarki í uppbótartímanum og lokatölur urðu 1-4.

Á Grýluvelli í Hveragerði var KÁ í heimsókn hjá Hamri og gestirnir komust í 0-2 í fyrri hálfleiknum. Tomas Alassia fiskaði vítaspyrnu á tíundu mínútu seinni hálfleiks og fór sjálfur á punktinn og minnkaði muninn í 1-2. KÁ-menn bættu í og skoruðu þriðja markið á 83. mínútu en Georg Guðjohnsen klóraði í bakkann fyrir Hamar á þriðju mínútu uppbótartímans og KÁ sigraði 2-3.

Eftir tvær umferðir er Árborg með fullt hús stiga í 2. sæti deildarinnar en Hamar er í 8. sætinu án stiga.

Fyrri greinKaupin gerast ekki stærri á Eyrinni
Næsta greinVatnið í Hveragerði stenst gæðakröfur